United í sambandi við fyrrverandi stjóra Barcelona

Ernesto Valverde gæti tekið við Manchester United.
Ernesto Valverde gæti tekið við Manchester United. AFP

Forráðamenn enska knattspyrnufélagsins Manchester United hafa sett sig í samband við Ernesto Valverde, fyrrverandi stjóra Barcelona, og gæti hann tekið við liðinu af Ole Gunnar Solskjær sem var rekinn á sunnudag. Það er The Guardian sem greinir frá þessu.

Valverde er einn af þeim fimm stjórum sem eru á lista forráðamanna United um að taka við United en Mauricio Pochettino, stjóri París SG í Frakklandi, er sá sem hefur hvað mest verið orðaður við stjórastöðuna á Old Trafford.

Zinedine Zidane hefur einnig verið orðaður við félagið en hann er sagður hafa lítinn áhuga á því að flytja til Englands. Zidane gæti hins vegar tekið við París SG fari svo að Pochettino taki við United.

Þá eru Brendan Rodgers, stjóri Leicester á Englandi, og Erik ten Hag, stjóri Ajax í Hollandi, einnig á listanum yfir hugsanlega framtíðarstjóra liðsins.

The Guardian greinir frá því að stjórn United sjái Valverde ekki fyrir sér sem framtíðarlausn fyrir félagið en hann gæti stýrt liðinu út tímabilið á meðan félagið leitar að framtíðarknattspyrnustjóra.

Valverde, sem er 57 ára gamall, var rekinn frá Barcelona í janúar 2020 en liðið varð tvívegis Spánarmeistari undir hans stjórn og einu sinni bikarmeistari.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert