Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, segir að lið sitt vilji að sjálfsögðu leggja Porto að velli í Meistaradeild Evrópu á Anfield annað kvöld, enda þótt Liverpool hafi þegar tryggt sér sigur í riðlinum þó tveimur umferðum sé ólokið.
Liverpool er með 12 stig en Porto er með 5 stig í öðru sæti þannig að Klopp og hans menn gætu leyft sér að tapa báðum leikjunum sem eftir eru í riðlakeppninni.
„Sá sem skrifar undir samning sem knattspyrnustjóri eða leikmaður hjá Liverpool veit að hann þarf að vinna alla leiki. Allir búast við því alltaf. Það þýðir að það er alltaf pressa á þér, vissulega þurfum við ekki að vinna leikinn á morgun en við viljum vinna leikinn. Þannig er staðan og vonandi gefur það okkur frelsið til að spila og ákefðinni til að verjast," sagði Klopp á fréttamannafundi í dag.
„Eftir að ég kom hingað höfum við vanalega þurft að berjast fram í síðasta leik riðlakeppninnar um að komast einhvern veginn áfram, en það er öðruvísi í ár. En ég hugsa ekki mikið um þetta, við ætlum bara að reyna að vinna leikinn annað kvöld," sagði Klopp.
Viðbúið er að hann hvíli eitthvað af fastamönnum sínum, enda mikil törn framundan hjá liðin, og leikmenn eins og Jordan Henderson og Andy Robertson sem hafa verið að koma upp úr meiðslum eru ólíklegir til að spila.