Arsenal vann verðskuldaðan 2:0-heimasigur á Newcastle í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta í dag.
Eftir markalausan fyrri hálfleik, þar sem Arsenal var töluvert betri aðilinn, kom Bukayo Saka heimaliðinu verðskuldað yfir á 56. mínútu er hann slapp einn gegn Martin Dúbravka í marki Newcastle og skoraði af öryggi.
Tíu mínútum síðar gulltryggði Gabriel Martinelli 2:0-sigur er hann kláraði glæsilega í teignum eftir sendingu fram völlinn frá Japananum Tekehiro Tomiyasu. Stuttu áður hafði Martinelli komið inn á fyrir Saka vegna meiðsla.
Sigurinn hefði getað orðið stærri og fékk Pierre-Emerick Aubameyang m.a. sannkallað dauðafæri í fyrri hálfleik er hann skaut í stöng fyrir opnu marki. Jonjo Shelvey fékk besta færi Newcastle en Aaron Ramsdale í marki Arsenal varði vel í slánna er miðjumaðurinn átti hörkuskot rétt utan teigs.
Sigur Arsenal var hinsvegar verðskuldaður og gott svar eftir 0:4-skellinn gegn Liverpool í síðustu umferð. Arsenal er í fimmta sæti með 23 stig en Newcastle er sem fyrr án sigurs í botnsætinu með sex stig.