Brighton fór upp fyrir Manchester United og upp í áttunda sæti ensku úrvalsdeildarinnar í fótbolta með markalausu jafntefli á heimavelli gegn Leeds í lokaleik dagsins.
Brighton var töluvert sterkari aðilinn stærstan hluta leiks og fékk mörg góð tækifæri til að skora. Neal Maupay fékk tvö úrvalsfæri í fyrri hálfleik en hitti ekki á markið á meðan Leandro Trossard átti hörkuskot sem Illan Meslier í marki Leeds varði glæsilega í stöngina.
Heimamenn voru áfram sterkari í seinni hálfleik og varamaðurinn Solly March var nálægt því að skora þegar hann skaut í stöng í lokin. Tyler Roberts, varamaður Leeds, fékk tvö fín færi til að skora sigurmark Leeds tíu mínútum fyrir leikslok en Robert Sánchez í marki Brighton varði vel.
Brighton er í áttuna sæti með átján stig, þrátt fyrir að hafa leikið átta leiki í röð án þess að fagna sigri. Leeds er í 17. sæti, einu sæti og þremur stigum fyrir ofan fallsæti.