Draumabyrjun Steven Gerrards við stjórnvölinn hjá Aston Villa heldur áfram. Í dag gerði liðið góða ferð til Lundúna og lagði Crystal Palace 2:1 í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu karla.
Matt Targett kom gestunum yfir eftir stundarfjórðungs leik þegar. Ashley Young tók þá hornspyrnu frá hægri, James Tomkins í liði Palace missti boltann yfir sig. Targett gat því tekið við boltanum í vítateignum og skoraði með föstu ristarskoti af stuttu færi.
Það var svo ekki fyrr en á 86. Mínútu að annað mark Villa í leiknum kom. Anwar El Ghazi renndi þá boltanum til hliðar á John McGinn sem skoraði með glæsilegu skoti rétt fyrir utan teig.
Á fimmtu mínútu uppbótartíma minnkaði Marc Guéhi muninn fyrir Palace þegar hann potaði fyrirgjöf Cheikhou Kouyaté yfir línuna af stuttu færi.
Lengra komust heimamenn í Palace þó ekki og sterkur eins marks útisigur Villa staðreynd.
Fyrsti leikur Villa undir stjórn Gerrards um síðustu helgi endaði einnig með sigri, þegar liðið vann Brighton & Hove Albion 2:0.
Einn annar leikur fór fram klukkan 15 í ensku úrvalsdeildinni í dag. Það var viðureign Norwich City og Wolverhampton Wanderers og lauk leiknum með markalausu jafntefli.
Nýr stjóri Norwich, Dean Smith, fer því sömuleiðis vel af stað en liðið fylgdi eftir 2:1 sigri gegn Southampton í hans fyrsta leik um síðustu helgi með því að krækja í eitt stig í dag.