Liverpool fór illa með Dýrlingana

Leikmenn Liverpool fagna marki Virgil van Dijk.
Leikmenn Liverpool fagna marki Virgil van Dijk. AFP

Liverpool átti ekki í teljandi vandræðum með Southampton þegar liðin mættust á Anfield í 13. umferð ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu karla í dag.

Leikurinn fór afar fjörlega af stað og eftir aðeins tvær mínútur náði Liverpool forystunni.

Sadio Mané gaf þá laglega sendingu inn á vítateig þar sem Andy Robertson var mættur í gott hlaup, hann renndi boltanum út á Diogo Jota sem lagði hann í netið af markteig, 1:0.

Hálftíma síðar, á 32. mínútu, var Jota aftur á ferðinni.

Liverpool vann boltann á vallarhelmingi Dýrlinganna, boltinn barst til fyrirliðans Jordan Henderson, sem lagði boltann inn fyrir á Mohamed Salah sem renndi boltanum þvert fyrir markið, á milli fóta Lyanco í vörn Southampton, og eftirleikurinn fyrir Jota enn auðveldari en í fyrra marki hans þar sem hann þurfti aðeins að koma boltanum yfir línuna fyrir galopnu marki.

Staðan orðin 2:0 og sex mínútum síðar kom þriðja markið.

Valentino Livramento skallaði fyrirgjöf Trent Alexander-Arnold frá, Thiago var fyrstur á boltann, lék skemmtilega á Jan Bednarek, þrumaði að marki og boltinn fór af Lyanco og þaðan í netið.

Þetta var annað mark Thiago í ensku úrvalsdeildinni. Bæði hafa þau komið á Anfield gegn Southampton.

Southampton fékk sömuleiðis sín færi í fyrri hálfleiknum. Armando Broja slapp til að mynda einn í gegn í stöðunni 1:0 en Alisson varði vel af stuttu færi og Adam Armstrong freistaði þess að minnka muninn undir lok hálfleiksins en Alisson varði skot hans úr vítateignum.

Liverpool leiddi því 3:0 þegar flautað var til leikhlés.

Snemma í síðari hálfleik, á 52. mínútu, kom fjórða markið.

Það skoraði Virgil van Dijk gegn sínum gömlu félögum. Skot hans eftir hornspyrnu Alexander-Arnold frá hægri var nokkuð fast en beint á Alex McCarthy í marki Southampton, sem missti boltann undir sig á klaufalegan hátt.

Eftir þetta fjórða mark gerðu gestirnir af suðurströndinni sig líklega til þess að minnka muninn en Alisson og varnarmenn Liverpool náðu nokkrum sinnum að komast fyrir skot þeirra úr prýðis stöðum.

Jota fékk svo gott færi til þess að fullkomna þrennuna þegar rúmur stundarfjórðungur lifði leiks en skot hans af stuttu færi eftir fyrirgjöf Robertson fór framhjá.

Fleiri urðu mörkin hins vegar ekki og öruggur 4:0 sigur Liverpool staðreynd.

Liverpool fer með sigrinum upp í 2. sæti deildarinnar, að minnsta kosti tímabundið, og er nú einu stigi á eftir toppliði Chelsea, sem á leik til góða gegn Manchester United á morgun.

Southampton fer með tapinu niður í 14. sætið.

Thiago fagnar marki sínu.
Thiago fagnar marki sínu. AFP
Diogo Jota kemur Liverpool á bragðið.
Diogo Jota kemur Liverpool á bragðið. AFP
Liverpool 4:0 Southampton opna loka
90. mín. Mo Salah (Liverpool) á skot sem er varið Flottur sprettur sem endar með skoti fyrir utan teig sem fer nærri því í innkast!
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert