Enn tapar Everton – markaveisla í Leicester

Ivan Toney skoraði sigurmark Brentford gegn Everton.
Ivan Toney skoraði sigurmark Brentford gegn Everton. AFP

Nýliðar Brentford unnu nauman sigur gegn Everton þegar liðin mættust í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu karla í dag. Leicester City vann þá góðan sigur gegn nýliðum Watford í miklum markaleik.

Ivan Toney skoraði eina mark leiksins í 1:0-sigri gegn Everton. Það kom úr vítaspyrnu á 24. mínútu, sem var dæmd eftir að Andros Townsend braut á Frank Onyeka.

Everton hefur nú tapað fimm af síðustu sex leikjum sínum í ensku úrvalsdeildinni.

Mun meira fjör var í leik Leicester og Watford.

James Maddison kom heimamönnum í Leicester á bragðið með laglegu marki eftir rúmlega stundarfjórðungs leik.

Joshua King jafnaði metin fyrir Watford eftir hálftíma leik með marki úr vítaspyrnu áður en Jamie Vardy kom Leicester yfir á ný fjórum mínútum síðar.

Þá vippaði hann boltanum yfir Daniel Bachmann í marki Watford eftir laglega stungusendingu Maddison.

Vardy skoraði svo aftur á 39. mínútu þegar hann var mættur á nærstöngina og sneiddi hornspyrnu Maddison í fjærhornið.

Staðan því 3:1 í hálfleik.

Eftir klukkutíma leik minnkaði hinn funheiti Emmanuel Dennis muninn fyrir Watford þegar hann slap í gegn og vippaði snyrtilega yfir Kasper Schmeichel í marki Leicester.

Síðasta orðið átti þó Leicester. Ademola Lookmann skoraði fjórða markið á 69. mínútu af stuttu færi og tryggði Leicester þar með 4:2 sigur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert