Graham Potter, knattspyrnustjóri Brighton & Hove Albion, kvaðst steinhissa á því að stuðningsmenn félagsins hafi baulað á liðið eftir markalaust jafntefli gegn Leeds United í ensku úrvalsdeildinni í gærkvöldi.
„Ég er svolítið mikið undrandi yfir viðbrögðum áhorfenda í lok leiks því frammistaðan var frábær gegn liði sem vill halda boltanum og hlaupa meira en þú. Eitthvað sem þeim tókst ekki í dag,“ sagði Potter eftir leik í gærkvöldi.
Þegar lokaflautið gall bauluðu stuðningsmenn Brighton og var Potter sýnilega hissa er hann hló og hristi hausinn.
Brighton hefur leikið vel á tímabilinu en oft átt í erfiðleikum með nýta færin sín, líkt og í gær þegar þrjú skot leikmanna liðsins höfnuðu í tréverkinu. Liðið er nú í áttunda sæti ensku úrvalsdeildarinnar.
Í 120 ára sögu félagsins hefur liðið aldrei hafnað í efri hluta efstu deildar og því þykir Potter sem stuðningsmenn ættu aðeins að staldra við og líta til þess hversu mjög liðinu hefur farið fram undanfarin ár.
„Þeir eiga rétt á sinni skoðun en ég er fullkomlega ósammála þeim. Við erum í áttunda sæti í ensku úrvalsdeildinni en kannski þarf ég á sögukennslu að halda þegar kemur að þessu knattspyrnufélagi,“ sagði hann.