Manchester City vann sterkan 2:1 sigur á West Ham United þegar liðin mættust í 13. umferð ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu karla í dag.
Heimamenn í City fengu fyrsta góða færi leiksins á 16. mínútu þegar Aymeric Laporte skallaði hornspyrnu Ilkay Gündogan í stöngina.
Fyrsta markið kom svo á 33. mínútu. Riyad Mahrez fékk þá nægt pláss á hægri kantinum, lék inn í vítateig, gaf fyrir með jörðinni, boltinn fór af varnarmanni West Ham og barst þaðan til Gündogan sem skoraði auðveldlega af markteig.
Skömmu síðar komst Gabriel Jesus nálægt því að tvöfalda forystuna en Ben Johnson hreinsaði skot hans af marklínunni á ögurstundu.
Skömmu fyrir leikhlé átti Mahrez átti skot í stöngina úr þröngu færi þegar hann fylgdi eftir góðu skoti Joao Cancelo sem Lukasz Fabianski í marki Hamranna hafði varið til hliðar.
Allt kom þó fyrir ekki og leiddi City því 1:0 í hálfleik. Síðasta stundarfjórðunginn í fyrri hálfleik bætti verulega í snjókomuna í Manchester-borg svo Etihad-völlurinn var orðinn skjannahvítur.
Í leikhléi var völlurinn skafaður líkt og fyrir leik og var hætt að snjóa í þeim síðari. Aðstæður voru því öllu þægilegri í síðari hálfleik þó vissulega væri enn napurt, aðeins einnar gráðu hiti.
Síðari hálfleikurinn var keimlíkur þeim fyrri þar sem City fékk nokkur góð færi til þess að bæta við en Fabianski greip vel inn í, auk þess sem Aaron Cresswell bjargaði á línu frá Jesus og lenti á stönginni í leiðinni, sem varð til þess að hann þurfti að fara meiddur af velli.
Á 90. mínútu tókst City loks að tvöfalda forystuna. Jesus lagði boltann þá út á Fernandinho, sem var nýkominn inn á sem varamaður. Hann beið við vítateigslínuna og lagði boltann í stöngina og inn, 2:0.
Á fjórðu mínútu uppbótartíma minnkaði varamaðurinn Manuel Lanzini svo muninn. Hann tók þá stórkostlegt skot á lofti fyrir utan teig sem fór í stöngina og inn.
Staðan orðin 2:1 og reyndust það lokatölur.
City fer með sigrinum aftur upp í annað sæti deildarinnar. West Ham er áfram í fjórða sætinu.