Gerrard kemur hingað til að vinna okkur

Jürgen Klopp stýrir Liverpool gegn Aston Villa og Steven Gerrard …
Jürgen Klopp stýrir Liverpool gegn Aston Villa og Steven Gerrard á morgun. AFP

Jürgen Klopp knattspyrnustjóri Liverpool segir að þó Steven Gerrard kollegi sinn hjá Aston Villa sé Liverpoolmaður í húð og hár muni hann mæta á  Anfield á morgun til að ná í þrjú stig og ekkert annað.

„Ég get ímyndað mér hvernig honum líður. Ég veit að hann sagði að tilfinningarnar yrðu lagðar til hliðar. Hann er kominn með reynslu sem þjálfari, hefur verið í þessu starfi um nokkurt skeið og veit hvernig hann á að nálgast leiki. En hann hefur enga hugmynd um hvernig tilfinningin verður þegar hann stígur inn á leikvanginn eða stendur upp af varamannabekknum," sagði Klopp á fréttamannafundi í dag.

„Ég upplifði svipað þessu þegar ég kom aftur til Mainz í fyrsta skipti," sagði Klopp en rétt eins og Gerrard spilaði Klopp nánast allan sinn feril með sama liðinu, Mainz í Þýskalandi, og þjálfaði síðan liðið í sjö ár áður en hann fór til Dortmund.

„Þetta er skrýtið. Þú kannt mjög vel við allt fólkið sem þú hittir, og þannig er það ekki alltaf þegar þú ferð eitthvert til að spila. En ég náði að höndla það og Stevie mun höndla það. Hann er vinur 99 prósenta af starfsliði Liverpool og þetta eina prósent hitti hann aldrei.

Ég hef aldrei heyrt eitt neikvætt orð í garð Stevens Gerrards eftir að ég kom hingað. Ég hef hitt hann, þetta er frábær náungi, en hann mun koma hingað til þess að vinna leikinn. Við tökumst í hendur fyrir leik og eftir leik, en þess á milli mun hann leggja allt í sölurnar gegn okkur," sagði Klopp.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert