Enska knattspyrnufélagið Liverpool hefur augastað á tveimur leikmönnum í ensku úrvalsdeildinni fyrir næsta tímabil, samkvæmt frétt staðarblaðsins Liverpool Echo í dag.
Þetta eru Jarrod Bowen hjá West Ham og hinn brasilíski Raphinha hjá Leeds en þeir eru báðir 24 ára gamlir og leika báðir sem kantmenn. Liverpool Echo segir að ólíklegt að leikmennirnir komi til félagsins í janúar en reynt verði að fá þá í hópinn næsta sumar.
Bowen getur leikið allar stöðurnar framarlega á vellinum en hann hefur skorað 12 mörk í 66 úrvalsdeildarleikjum með West Ham sem fékk hann frá Hull árið 2020.
Raphinha leikur sitt annað tímabil með Leeds sem keypti hann af Rennes í Frakklandi og hann hefur gert 11 mörk í 40 úrvalsdeildarleikjum með liðinu. Raphinha vann sér sæti í landsliði Brasilíu á þessu ári og hefur skorað tvö mörk í fyrstu fimm landsleikjunum.