Chelsea vann dramatískan 3:2-sigur á Leeds á heimavelli í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta í dag. Jorginho skoraði sigurmarkið á fjórðu mínútu uppbótartímans með marki úr víti.
Leeds komst óvænt yfir á 28. mínútu er Raphinha skoraði úr víti sem Daniel James náði í. Mason Mount jafnaði á 42. mínútu og var staðan í hálfleik 1:1.
Chelsea fékk víti á 59. mínútu er markaskorarinn Raphinha braut á Antonio Rüdiger innan teigs. Jorginho fór á punktinn og skoraði af öryggi. Gestirnir gáfust hins vegar ekki upp því hinn 19 ára gamli Joe Gelhardt jafnaði 81 sekúndu eftir að hann kom inn á sem varamaður á 83. mínútu.
Það dugði ekki fyrir Leeds því Chelsea fékk aðra vítaspyrnu er Mateusz Klich tók Rüdiger niður í teignum í uppbótartíma. Jorginho fór aftur á punktinn, skoraði aftur, og tryggði Chelsea stigin þrjú. Chelsea er í þriðja sæti með 36 stig og Leeds í 15. sæti með 16 stig.
Arsenal vann sannfærandi 3:0-sigur á Southampton á heimavelli. Alexandre Lacazette og Martin Ødegaard komu Arsenal í 2:0 í fyrri hálfleik og Gabriel Magalhaes skoraði þriðja markið í seinni hálfleik.
Arsenal er í fimmta sæti með 26 stig og Southampton í 16. sæti með 16 stig.