Englandsmeistarar Manchester City eru komnir með fjögurra stiga forskot á toppi ensku úrvalsdeildarinnar í fótbolta, í bili hið minnsta, eftir 1:0-heimasigur á Wolves í fyrsta leik dagsins í deildinni.
Wolves lék allan seinni hálfleikinn manni færri þar sem Raúl Jiménez, sóknarmaður liðsins, fékk tvö gul spjöld í uppbótartíma fyrri hálfleiks. Það fyrra fékk hann fyrir brot á Rodri og það seinna fyrir að vera fyrir þegar City ætlaði að taka aukaspyrnu í kjölfarið.
Raheem Sterling skoraði sigurmarkið af vítapunktinum á 66. mínútu eftir að portúgalski miðjumaðurinn João Moutinho fékk boltann í höndina innan teigs. Dómurinn var nokkuð harður, þar sem boltinn virtist fyrst og fremst fara í síðuna á Moutinho.
Sterling skoraði af öryggi af punktinum í kjölfarið. Þrátt fyrir að City hafi verið töluvert meira með boltann urðu mörkin ekki fleiri.