Pierre-Emerick Aubameyang, fyrirliði enska knattspyrnuliðsins Arsenal, er ekki í leikmannahópi Arsenal er liðið mætir Southampton klukkan 15 í ensku úrvalsdeildinni í dag.
Mikel Arteta, knattspyrnustjóri Arsenal, staðfestir að Gabonmaðurinn sé í agabanni en hann æfði ekki með liðinu í gær.
„Því miður er þetta agabann,“ sagði Arteta við Sky fyrir leikinn. „Við erum með ákveðnar reglur sem verður að fylgja. Agabannið byrjar í dag, en þetta er ekki auðveld staða. Við viljum ekki að fyrirliðinn okkar sé í þessari stöðu,“ bætti spænski stjórinn við.