Leikmaður Liverpool eftirsóttur í janúar

Divock Origi gæti fært sig um set til Ítalíu þegar …
Divock Origi gæti fært sig um set til Ítalíu þegar janúarglugginn verður opnaður. AFP

Divock Origi, framherji enska knattspyrnufélagsins Liverpool, gæti yfirgefið herbúðir félagsins í janúar þegar félagaskiptaglugginn verður opnaður en hann hefur ekki átt fast sæti í liði Liverpool á leiktíðinni.

Ítalski miðillinn Tuttomercato greinir frá því að ítölsku A-deildarfélögin AC Milan og Atalanta hafi bæði mikinn áhuga á framherjanum.

Origi, sem er 27 ára gamall, hefur ekki átt fast sæti í liði Liverpool síðan hann gekk til liðs við félagið frá  Lille árið 2015 en hann eyddi tímabilinu 2017-18 á láni hjá Wolfsburg í Þýskalandi.

Framherjinn hefur skorað 40 mörk í 167 leikjum með Liverpool en hann hefur komið við sögu í þremur leikjum með Liverpool í deildinni á tímabilinu, í öllum þeirra hefur hann komið inn á sem varamaður.

Liverpool er sagt vilja fá í kringum 20 milljónir punda fyrir Belgann en hann hefur einnig verið orðaður við lið í ensku úrvalsdeildinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert