Englandsmeistarar Manchester City völtuðu yfir á Leeds á heimavelli í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta í kvöld, 7:0.
City byrjaði miklu betur og fékk fín færi til að skora í upphafi leiks. Það tókst á 8. mínútu er Phil Foden skóflaði boltanum að marki utan teigs með þeim afleiðingum að hann lak í markið, framhjá Stuart Dallas sem náði ekki að verja boltann á línunni.
Aðeins fimm mínútum síðar var staðan orðin 2:0 þegar Jack Grealish skallaði í netið af stuttu færi þegar gestunum tókst ekki að koma boltanum í burtu eftir hornspyrnu.
Gestirnir sköpuðu sér lítið sem ekki neitt í fyrri hálfleik og á 32. mínútu var staðan orðin 3:0. Rodri átti þá flotta stungusendingu á Kevin De Bruyne sem skoraði framhjá Illan Meslier í marki Leeds og var staðan í hálfleik 3:0.
City-menn slökuðu lítið á í seinni hálfleik því Riyad Mahrez skoraði fjórða markið á 49. mínútu og Kevin De Bruyne bætti við sínu öðru marki og fimmta marki City með neglu af löngu færi á 62. mínútu.
Því næst var komið að miðvörðum City því John Stones skoraði af stuttu færi á 74. mínútu og félagi hans í vörninni, Nathan Aké, skallaði í netið eftir horn á 78. mínútu og gerði sjöunda markið og þar við sat.
City er sem fyrr á toppnum, nú með 41 stig, fjórum stigum á undan Liverpool og fimm á undan Chelsea sem eiga leik til góða. Leeds er í 16. sæti með 16 stig.