Áhorfendur leikja í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu karla munu frá og með morgundeginum þurfa að framvísa bólusetningarvottorði vilji þeir komast inn á leikvanga.
Gripið er til þessa ráðstafana þar sem Ómíkrón-afbrigðið af kórónuveirunni fer sem eldur í sinu um Bretland.
Þar eru leikmenn og starfslið félaga í ensku úrvalsdeildinni síst undanskilið enda er búið að fresta leikjum Tottenham Hotspur og Brighton & Hove Albion og Manchester United og Brentford í vikunni vegna fjölda smita innan herbúða Tottenham og Man. United.
Aston Villa, Leicester City og Norwich City hafa einnig tilkynnt um smit innan herbúða félaga sinna þó ekki hafi þurft að fresta leikjum þeirra í vikunni.
Alls hefur metfjöldi tilfella greinst hjá ensku úrvalsdeildarfélögunum, eða 42 tilfelli leikmanna og starfsmanna.
Það er mesti fjöldi sem hefur greinst síðan reglulegar, vikulegar skimanir hófust í maí 2020, sem leiddi til þess að keppni í deildinni var frestað í þrjá mánuði.
Vegna þessa háa smitfjölda innan félaga og aukinna smita í samfélaginu yfir höfuð er óttast að enska úrvalsdeildin þurfti að hefja að spila aftur fyrir luktum dyrum, líkt og var raunin í um eitt ár frá sumrinu 2020 til sumarsins 2021.