Urðum að taka þessa ákvörðun

Mikel Arteta og Pierre-Emerick Aubameyang.
Mikel Arteta og Pierre-Emerick Aubameyang. AFP

Mikel Arteta, knattspyrnustjóri Arsenal, segir að það hafi verið nauðsynlegt að taka þá ákvörðun að svipta sóknarmanninn Pierre-Emerick Aubameyang fyrirliðabandinu hjá liðinu.

„Við höfum tekið þessa ákvörðun, sem er því miður mjög erfið. Ef ég mætti velja myndi ég ekki vilja sitja hér og tala um ákvörðunin en við urðum að taka hana,“ sagði Arteta á blaðamannafundi í dag.

Aubameyang var ekki í leikmannahópi Arsenal í leik liðsins gegn Southampton um liðna helgi og var þá greint frá því að það hafi verið vegna agabrots. Arsenal hefur ekki tilkynnt hvert brotið var en The Athletic greindi frá því að hann hafi komið of seint úr utanlandsferð sem hann var búinn að fá leyfi fyrir að fara í.

„Þegar við komumst að þeirri niðurstöðu að taka þessa ákvörðun var það vegna þess að vegna þess að hún er sú rétta þegar kemur að því að verja hagsmuni félagsins,“ bætti Arteta við.

Hann var þá spurður hvenær mætti eiga von á Aubameyang aftur í leikmannahóp Arsenal, en hann verður ekki í hópnum gegn West Ham United annað kvöld.

„Við þurfum á smá tíma að halda núna þar sem þetta hefur verið margt til þess að melta og mjög erfið ákvörðun að taka. Hún var mjög sár og hann þarf smá stund til þess að jafna sig,“ sagði Arteta.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert