Brasilíumaðurinn búinn að jafna sig á meiðslum

Roberto Firmino gæti spilað gegn Newcastle annað kvöld.
Roberto Firmino gæti spilað gegn Newcastle annað kvöld. AFP

Brasilíski sóknarmaðurinn Roberto Firmino hefur jafnað sig á meiðslum aftan í læri sem hafa haldið honum frá keppni undanfarnar vikur og er því klár í slaginn með enska knattspyrnufélaginu Liverpool.

„Bobby æfði fullkomlega eðlilega í gær þannig að ég myndi segja að hann geri tilkall til þess að spila,“ sagði Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, á blaðamannafundi í dag.

Liverpool fær Newcastle United í heimsókn annað kvöld í ensku úrvalsdeildinni og greindi Klopp einnig frá því að miðjumaðurinn ungi, Curtis Jones, sé að nálgast endurkomu eftir óheppileg augnmeiðsli sem hann varð fyrir á æfingu fyrir rúmum mánuði síðan.

„Curtis tók að hluta þátt í sinni fyrstu æfingu með liðinu síðan hann meiddist þannig að það er ekki langt í hann.

Hvað tímasetningu varðar gæti þetta ekki verið betra, að fá tvo leikmenn í þessum gæðaflokki til baka eru augljóslega góðar fréttir,“ sagði Klopp, en sem kunnugt er er afar þétt leikjadagskrá í desember í ensku úrvalsdeildinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert