Dean Smith, knattspyrnustjóri enska félagsins Norwich City, kveðst ekki vita hvort hann verði með nógu marga leikfæra leikmenn fyrir leik liðsins gegn West Ham United í ensku úrvalsdeildinni um helgina.
Fjöldi leikmanna Norwich var fjarverandi í 0:2-tapi fyrir Aston Villa í deildinni í gærkvöldi, flestir vegna kórónuveirusmits en nokkrir vegna meiðsla.
Smith viðurkennir að hann sé ráðvilltur gagnvart því hve margir leikmenn þurfi að vera smitaðir hjá liði svo enska úrvalsdeildinn fresti leikjum þess.
„Við spiluðum við Tottenham og þeir lentu í útbreiðslu veirunnar, við spiluðum við Manchester United og þeir lentu í útbreiðslu.
Við vildum fá leiðbeiningar um hvort það væri sanngjarnt gagnvart Villa ef við höfum verið með leikmenn með einkenni nálægt okkur,“ sagði Smith eftir leik í gærkvöldi, en leikjum Tottenham og Man. United í deildinni í þessari viku var frestað vegna fjölda smita innan herbúða þeirra.
„Ég er ekki að segja að allir leikmenn okkar séu með Covid og með einkenni, því nokkrir þeirra eru meiddir. Venjulega myndi ég velja byrjunarliðið daginn fyrir leik en það gæti verið að allt að átta leikmenn sem væru í aðalliðshópnum séu frá [vegna veirunnar].
Svo meiddist Ozan Kabak og Sam Byram spilaði sinn fyrsta leik í tvö ár. Við eigum nánast enga leikmenn eftir,“ bætti Smith við í gærkvöldi.