Jacob Ramsey, ungur sóknartengiliður enska knattspyrnufélagsins Aston Villa, segist vilja feta í fótspor knattspyrnustjóra sins, Stevens Gerrards, þegar kemur að því að skora fjölda marka af miðjunni.
„Ég hef verið að horfa á klippur af stjóranum. Hann var einn af bestu skorandi miðjumönnunum og það er nokkuð sem ég vil vera,“ sagði Ramsey við BT Sport eftir 2:0-útisigur Villa á Norwich City í gærkvöldi.
Hann kom Villa á bragðið í fyrri hálfleik með glæsilegu einstaklingsframtaki og góðu skoti sem söng uppi í nærhorninu.
„Ég sá að Ollie [Watkins framherji] var ekki til staðar og hugsaði því með mér: „Hví ekki?““ sagði Ramsey um mark sitt, en hann var þá einn gegn nokkrum varnarmönnum en lét það ekki stöðva sig.
Ramsey, sem er tvítugur, hefur nú skorað tvö mörk fyrir Villa á ferlinum og fimm mörk alls á meistaraflokksferli sínum. Gerrard skoraði tæplega 200 mörk í öllum keppnum með Liverpool og LA Galaxy á ferli sínum.