Thomas Frank, knattspyrnustjóri enska félagsins Brentford, telur að enska úrvalsdeildin ætti að fresta öllum leikjum deildarinnar sem fara eiga fram um komandi helgi með það fyrir augum að stemma stigu við þeim mikla fjölda kórónuveirusmita sem eru að koma upp hjá félögunum í deildinni.
Á blaðamannafundi í morgun sagðist Frank hafa verið í sambandi við forsvarsmenn úrvalsdeildarinnar auk annarra knattspyrnustjóra félaga í henni, sem hann sagði vera sammála sér í þessum efnum. Vill Frank einnig að leikjum í deildabikarnum, sem fara eiga fram í næstu viku, verði frestað.
Leik Brentford og Manchester United, sem fara átti fram á þriðjudagskvöld, var frestað vegna fjölda smita innan herbúða United en Brentford hefur sjálft ekki farið varhluta af smitum.
Á miðjum blaðamannafundinum, sem var haldinn fyrir fyrirhugaðan leik Brentford gegn Southampton á sunnudag, var Frank tjáð að fjórir leikmenn til viðbótar við þá níu sem höfðu greinst innan herbúða Brentford hafi greinst í morgun og tala smitaðra því komin upp í 13.
„Við teljum að við ættum að fresta öllum leikjum ensku úrvalsdeildarinnar um komandi helgi. Kórónuveirusmit eru að fara upp úr öllu valdi hjá öllum úrvalsdeildarfélögunum.
Allir eru að glíma við þetta og eiga í vandræðum. Ef við frestum þessari umferð og einnig næstu umferð deildabikarins myndu allir fá að minnsta kosti viku, eða 4-5 daga til þess að sjá til þess að allt sé hreinsað á æfingasvæðunum og þá getum við slitið þessa hlekki,“ sagði Frank.