Liverpool vann 3:1-heimasigur á Newcastle í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta í kvöld. Liverpool, sem hefur unnið átta leiki í röð í öllum keppnum, er nú með 40 stig og í öðru sæti, einu stigi á eftir toppliði Manchester City. Newcastle er enn í næstneðsta sæti með aðeins tíu stig.
Liverpool var mikið með boltann í upphafi leiks og kom sér í fínar stöður við vítateig Newcastle.
Það voru hinsvegar gestirnir frá Newcastle sem komust óvænt yfir á 7. mínútu eftir sína fyrstu sókn. Thiago hreinsaði boltann þá beint á Jonjo Shelvey sem skoraði með glæsilegu skoti af 20 metra færi í bláhornið.
Forystan entist í 14 mínútur því Diogo Jota jafnaði á 21. mínútu. Martin Dúbravka varði fyrst vel frá Jota af stuttu færi en Portúgalinn tók frákastið og skoraði af öryggi. Aðeins fjórum mínútum síðar var Salah búinn að koma Liverpool yfir er hann fylgdi á eftir skoti frá Mané, aftur eftir markvörslu frá Dúbravka.
Liverpool var töluvert líklegra til að bæta við mörkum það sem eftir lifði fyrri hálfsleiks og Mo Salah slapp í gegn skömmu síðar en þá setti Egyptinn boltann framhjá. Var staðan í leikhléi því 2:1.
Liverpool var áfram með töluverða yfirburði í seinni hálfleik þótt færin hafi látið á sér standa löngum stundum. Bakvörðurinn Trent Alexander-Arnold gulltryggði hinsvegar sigurinn með glæsilegu marki á 87. mínútu er hann negldi boltanum upp í samskeytin af löngu færi og þar við sat.