Chelsea tapaði stigum gegn Everton

Jarrad Branthwaite skorar mark Everton.
Jarrad Branthwaite skorar mark Everton. AFP

Chelsea þurfti að sætta sig við eitt stig er liðið fékk Everton í heimsókn í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta í kvöld. Urðu lokatölur á Stamford Bridge 1:1. Chelsea er nú í þriðja sæti með 37 stig, fjórum stigum á eftir toppliði Manchester City. Everton er í 14. sæti með 19 stig.

Chelsea var töluvert sterkari aðilinn í fyrri hálfleik og skapaði sér mikið af færum. Það gekk hinsvegar illa að koma boltanum framhjá Jordan Pickford í marki Everton og var því markalaust í hálfleik.

Pressan hélt áfram hjá Chelsea í seinni hálfleik og hún skilaði sér að lokum á 69. mínútu er Mason Mount skoraði eftir sendingu frá Reece James.

Everton var hinsvegar ekki lengi að jafna því hinn 19 ára gamli Jarrad Branthwaite skoraði aðeins fimm mínútum síðar eftir fyrirgjöf frá hinum tvítuga Anthony Gordon.  

Thiago Silva komst næst því að skora fyrir Chelsea á lokakaflanum en Pickford varði glæsilega frá honum af stuttu færi og skiptu liðin því með sér stigunum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert