„Ég hafði engar áhyggjur af okkur varnarlega, allan leikinn,“ sagði Thomas Tuchel, knattspyrnustjóri Chelsea, í samtali við BBC Sport eftir 1:1-jafntefli liðsins gegn Everton í ensku úrvalsdeildinni á Stamford Bridge í London í kvöld.
Mason Mount kom Chelsea yfir á 70. mínútu áður en Jarrad Branthwaite jafnaði metin fyrir Everton fjórum mínútum síðar.
„Við fengum mark á okkur úr föstu leikatriði en ég get ekki brotið á mér hausinn yfir þessu. Það er bara erfitt að skilja hvernig við getum fengið á okkur mark þegar við spilum svona vel varnarlega.
Við fengum fullt af færum til þess að skora í síðari hálfleik en það vantaði smá takt í okkur. Við notuðum þá leikmenn af bekknum sem við gátum en við vorum án sjö leikmanna og það er erfitt fyrir hvaða lið sem er,“ sagði Tuchel.
Þýski stjórinn var spurður að því hvort geri ætti hlé á tímabilinu vegna kórónuveirufaraldursins sem nú herjar á England.
„Ég ætla ekki að skipta mér af pólitíkinni í kringum fótboltann. Það hafa allir áhyggjur af kórónuveirunni og öðrum leikjum var frestað. Okkar leik var ekki frestað þannig að við gerðum okkar besta til að vinna hann,“ bætti Tuchel við.