Nat Phillips, miðvörður enska knattspyrnufélagsins Liverpool, segist vilja fara að spila reglulega leiki og því þurfi hann að róa önnur mið.
„Ég vil spila leiki. Þetta hefur verið erfitt því samkeppnin um að komast í þetta lið er gífurleg.
Ég og knattspyrnustjórinn erum sammála um að það besta í stöðunni fyrir mig er að spila eins marga leiki og mögulegt er. Ég tel að ég hafi sýnt það á síðasta ári að ég náði að þróa leik minn vel,“ sagði Phillips í samtali við Sky Sports.
Hann hefur lítið komið við sögu á þessu tímabili eftir að hafa spilað fjölda leikja á síðasta tímabili þegar Liverpool átti í miðvarðakrísu, en Virgil van Dijk, Joel Matip og Joe Gomez meiddust þá allir alvarlega og spiluðu lítið.
Phillips, sem er guðsonur Guðna Bergssonar, fyrrverandi landsliðsfyrirliða og leikmanns Boltons, þar sem Phillips er uppalinn, er orðinn 24 ára gamall og er fimmti kostur í miðvarðarstöðuna hjá Liverpool.
„Ég ætla að sjá hvað verður í boði í janúar og vinna út frá því. Á þessum tímapunkti tel ég það ólíklegt að ég fái að spila marga leiki fyrir Liverpool svo að ef ég fæ tækifæri til þess að gera það einhvers staðar annars staðar og það hentar öllum þá er það svo sannarlega eitthvað sem ég myndi vera áhugasamur um,“ sagði hann.
„Ég er búinn að öðlast reynslu í ensku úrvalsdeildinni og Meistaradeild Evrópu. Þær aðstæður sem geta komið upp þegar maður er nýr og stressaður, ég er búinn að fara í gegnum það ferli. Ég þarf ekki að fara í gegnum það ferli ef ég fer eitthvert annað.
Ég verð strax tilbúinn til þess að láta að mér kveða og spila,“ bætti Phillips við en sagði þó að ef hann kæmist ekki burt í janúar væri það í lagi þar sem hann væri stöðugt að bæta sig á æfingum með hinum mikla fjölda gæðaleikmanna Liverpool.