Leik Leicester og Tottenham frestað

Leik Leicester og Tottenham sem átti að fara fram á …
Leik Leicester og Tottenham sem átti að fara fram á King Power-vellinum í Leicester í kvöld hefur verið frestað. AFP

Tekin hefur verið ákvörðun um að fresta leik Leicester City og Tottenham Hotspur, sem átti að fara fram í kvöld í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu karla, vegna fjölda kórónuveirusmita innan herbúða beggja liða.

Í gær var greint frá því að beiðni beggja liða um að fresta leiknum vegna fjölda smita hafi verið hafnað en nú er búið að draga þá ákvörðun til baka.

Um er að ræða þriðja leikinn sem er frestað í þessari viku í deildinni, en leikjum Brentford og Manchester United sem átti að fara fram á þriðjudagskvöld og Burnley og Watford sem átti að fara fram í gærkvöldi var einnig frestað vegna fjölda smita.

Nú er búið að fresta þremur leikjum Tottenham í röð vegna veirunnar. Fyrst var hætt við leik gegn Rennes í Sambandsdeild Evrópu, þá var leik gegn Brighton & Hove Albion frestað og svo leik liðsins gegn Leicester í kvöld.

Leikjaálag Tottenham á nýju ári ætti því að vera talsvert þar sem leik liðsins í deildinni gegn Burnley, sem átti að fara fram undir lok nóvember, var frestað vegna gífurlegrar snjókomu í Burnley þann daginn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert