„Mun ekki biðjast afsökunar á þessari skoðun“

Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool.
Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool. AFP

Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, segir það mikilvægt að fólk þiggi bólusetningar og örvunarskammt í baráttunni við kórónuveiruna.

Nýtt afbrigði veirunnar, Ómíkrón, skekur nú Bretlandseyjar og fleiri lönd og hefur enska úrvalsdeildin þurft að fresta nokkrum leikjum í deildinni undanfarið vegna fjölda smita innan herbúða nokkurra félaga í henni.

Klopp segir að hlutfall bólusettra á meðal leikmanna og starfsfólks Liverpool sé mjög hátt enda renni fólki blóðið til skyldunnar til þess að reyna að vernda hvert annað, og hjálpi bólusetningar við veirunni til við það.

„Ég mun ekki biðjast afsökunar á skoðun minni í tengslum við bólusetningar, sama hversu óvinsæll ég gæti orðið í vissum kimum samfélagsins. Þetta er aldrei neitt sem snýr að því að fólk ætti að hlusta á mig, þetta snýst alltaf um að hlusta á fólkið sem veit um hvað það er að tala.

Hunsið þá sem þykjast vita eitthvað. Hunsið lygar og rangar upplýsingar. Hlustið á fólk sem veit best. Ef þú gerir það muntu á endanum vilja bólusetningu og örvunarskammt,“ sagði Klopp á blaðamannafundi í gær.

Þegar leikmenn og knattspyrnustjórar tjá sig með þessum hætti er þeim tilmælum gjarna beint til þeirra, til að mynda á samfélagsmiðlum, að halda sig við það að ræða um fótbolta. Klopp sagði ummæli í þeim dúr missa marks.

„Þegar manni er sagt að halda sig við fótbolta þá er fólk að missa sjónar á því sem er mikilvægast. Skoðun mín á bólusetningum kemur ekki til vegna ímyndunar minnar.

Það er aðalatriðið, ég hlusta á sérfræðingana. Fólk sem er klárara en ég gæti nokkurn tímann verið hefur komið til bjargar með því að búa þetta bóluefni til fyrir heiminn.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert