Þekkti ekki helminginn af leikmönnunum

Jürgen Klopp var ánægður með úrslit kvöldsins.
Jürgen Klopp var ánægður með úrslit kvöldsins. AFP

„Við horfðum á fleiri leiki með Bournemouth en Newcastle fyrir leikinn í kvöld,“ sagði Jürgen Klopp, knattsprynustjóri Liverpool, í samtali við BBC Sport eftir 3:1-sigur liðsins gegn Newcastle í ensku úrvalsdeildinni á Anfield í Liverpool í kvöld.

Liverpool lenti 0:1-undir í leiknum en þeir Diogo Jota, Mohamed Salah og Trent Alexander-Arnold sáu um markaskorun Liverpool í kvöld.

„Síðast þegar Eddie Howe kom hingað þá tókst liðinu hans líka að skora og við áttum vona á erfiðum leik. Þeir gerðu okkur mjög erfitt fyrir á stórum köflum og dampurinn datt aðeins úr þessu þegar við lentum undir.

Við fórum að drífa okkur um of en við skoruðum frábær mörk og ég er ánægður með liðið. Á þessum tímapunkti á tímabilinu þá snýst þetta bara um að ná í úrslit enda spilað afar þétt og spilamennskan er ekki aðalmálið,“ sagði Klopp.

Þrír leikmenn Liverpool greindust með kórónuveiruna í dag og var Klopp spurður út í það hvort gera ætti hlé á deildinni vegna veirunnar.

„Ég hef aldrei lent í því áður að þurfa draga þrjá leikmenn úr hópnum á leikdegi. Ég veit ekki hvað er best að gera, ég er ekki með neina lausn.

Ég sá byrjunarliðið hjá Everton í dag og þekkti ekki helminginn af leikmönnunum. Ef það heldur áfram að fækka í leikmannahópunum verður að bregðast við.

Lið geta ekki spilað með þrettán leikmenn leikfæra þegar það eru leikir á tveggja daga fresti. Það er nóg af spurningum en ég er ekki með öll svörin á hreinu,“ bætti Klopp við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert