Sé ekki ávinninginn í því að stöðva keppni

Jürgen Klopp og Roberto Firmino eftir leikinn gegn Newcastle í …
Jürgen Klopp og Roberto Firmino eftir leikinn gegn Newcastle í gærkvöldi. AFP

Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri enska félagsins Liverpool, segist ekki sjá ávinninginn í því að stöðva keppni í ensku úrvalsdeildinni vegna þess fjölda kórónuveirusmita sem herjar á fjölda félaga í deildinni um þessar mundir.

Vegna þessa fjölda hefur úrvalsdeildin þurft að fresta fjölda leikja í vikunni og vilja nokkur félög í deildinni fresta keppni fram yfir áramót, en Klopp segir að þar sem leikjaálag sé hvort eð er mikið og veiran skæða ekki að fara neitt myndi pása á deildinni ekki hjálpa mikið til.

„Að setja pásu á deildina er líklega ekki það rétta í stöðunni en hvað leikjadagskrána varðar verðum við að vera sveigjanlegri.

Þar til nú hefur fótboltanum nokkurn veginn tekist að halda kórónuveirunni úti með því að skima reglulega, þar sem leikmenn hafa staðið sig frábærlega í að fylgja ýmsum agareglum, en að þessu sinni er þetta mjög erfitt,“ sagði Klopp á blaðamannafundi eftir 3:1-sigur Liverpool á Newcastle United í gærkvöldi.

Hann hélt áfram: „Ég sé ekki mikinn ávinning í því að stöðva deildina því þegar við snúum aftur verður þetta eins.

Ef veiran verður horfin þá myndi ég vera sá fyrsti til þess að hætta leik, fara heim og bíða eftir því að hún hverfi á braut en það verður að öllum líkindum ekki raunin. Því velti ég því fyrir mér, hver er raunverulegur ávinningur þess?

Við vonumst eftir því að geta spilað og vonum að Tottenham geti spilað á sunnudag.“

Fresta hefur þurft tveimur síðustu deildarleikjum Tottenham vegna fjölda smita innan herbúða félagsins. Þá greindust þrír leikmenn Liverpool með veiruna í gær.

Sem stendur er áætlað að leikur Tottenham og Liverpool í deildinni á sunnudag fari fram.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert