Leik Villa og Burnley frestað

Jóhann Berg Guðmundsson og félagar í Burnley munu ekki spila …
Jóhann Berg Guðmundsson og félagar í Burnley munu ekki spila í dag. AFP

Leik Aston Villa og Burnley í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu karla, sem fara átti fram klukkan 15 í dag, hefur verið frestað rétt rúmum tveimur klukkustundum áður en hann átti að hefjast.

Enska úrvalsdeildin tók þessa ákvörðun eftir að fjöldi nýrra kórónuveirusmita greindist innan herbúða Villa í morgun.

Um er að ræða sjötta leikinn sem er frestað í deildinni þessa helgina vegna fjölda smita hjá mörgum félaganna, sem þýðir að sem stendur munu aðeins fjórir leikir fara fram í 18. umferðinni.

Þar af verður aðeins einn leikur í dag, að því gefnu að honum verði ekki frestað líka, en það er viðureign Leeds United og Arsenal sem á að hefjast klukkan 17.30.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert