Arsenal vann sannfærandi 4:1-útisigur á Leeds í eina leik dagsins í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta. Arsenal er í fjórða sæti með 32 stig, níu stigum á eftir toppliði Manchester City. Leeds er í 16. sæti með 16 stig, fimm stigum fyrir ofan fallsæti.
Arsenal var mun sterkari aðilinn í fyrri hálfleik og var staðan eftir hann 3:0.
Gabriel Martinelli skoraði fyrsta markið á 16. mínútu með föstu skoti úr teignum og hann bætti við öðru marki á 28. mínútu er hann slapp einn í gegn og kláraði vel.
Arsenal-menn voru ekki hættir í fyrri hálfleik því Bukayo Saka bætti við þriðja markinu á 42. mínútu með skoti í varnarmann og í markið úr teignum.
Leeds spilaði betur í seinni hálfleik en illa gekk að skapa færi. Heimamönnum tókst þó að minnka muninn á 75. mínútu með marki úr víti frá Raphinha. Arsenal átti hinsvegar lokaorðið þegar Emile Smith-Rowe bætti við fjórða markinu á 84. mínútu og þar við sat.