Raheem Sterling, sóknarmaður Manchester City, segist sjá eftir því hvernig hann skildi við Liverpool og samdi við City sumarið 2015.
Sterling, sem þá var tvítugur en þegar orðinn afar leikreyndur þar sem hann hóf að spila með aðalliði Liverpool aðeins 16 ára gamall, segir að hann hafi tjáð forsvarsmönnum Liverpool að félagið væri ekki með jafn mikinn metnað og hann.
Með því hafi Sterling hellt olíu á eldinn eftir langvarandi samningaviðræður um nýjan samning. Þær sigldu í strand og City keypti hann á 50 milljónir punda.
„Stundum þarftu að fara á eftir því sem þú virkilega vilt. Ferillinn er stuttur og það er aldrei hægt að spá fyrir um framtíðina. Þetta snýst um að taka ákvarðanir.
Ég myndi segja að ég sé vonsvikinn yfir því hvernig ég yfirgaf Liverpool. Ég sagði að metnaður félagsins væri ekki í samræmi við minn. Það er það eina sem ég sé eftir,“ sagði Sterling í samtali við Sky Sports.
„Mér leið vel í Liverpool. Þeir fjárfestu mikið í mér og veittu mér traust þegar ég var bara unglingur. Þeir hafa gegnt stóru hlutverki í lífi mínu og hafa enn þýðingu fyrir mig,“ bætti hann við.