Forsvarsmenn Aston Villa hafa beðist afsökunar á því að fresta þurfti leik liðsins gegn Burnley með rétt rúmlega tveggja klukkustunda fyrirvara fyrr í dag.
Leikurinn átti að hefjast klukkan 15 á Villa Park í Birmingham en skömmu fyrir klukkan 13 var tilkynnt að fresta þyrfti leiknum vegna aukins fjölda greindra kórónuveirusmita innan herbúða Villa.
Í yfirlýsingu frá Villa er Burnley og áhangendur liðsins beðnir afsökunar en einnig sagt að félagið hafi brugðist eins fljótt og þeim hafi verið auðið til þess að koma í veg fyrir hvers kyns truflanir eða upplausn.
„Félagið er miður sín yfir þeim óþægindum sem þetta hefur valdið Burnley og bæði okkar eigin stuðningsmönnum og stuðningsmönnum Burnley sem ætluðu á leikinn,“ sagði í yfirlýsingunni.