Auðvelt hjá City – enn tapar Chelsea stigum

Leikmenn Manchester City fagna marki Raheem Sterling.
Leikmenn Manchester City fagna marki Raheem Sterling. AFP

Manchester City lenti ekki í neinum vandræðum með Newcastle United þegar liðin mættust í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu karla í dag. Á sama tíma tókst Chelsea ekki að hafa betur gegn Wolverhampton Wanderers.

Gestirnir tóku forystuna strax á sjöundu mínútu. Oleksandr Zinchenko sendi þá háa sendingu inn í vítateig Newcastle, Joao Cancelo náði naumlega að halda boltanum í leik og náði lausri fyrirgjöf.

Engin hætta virtist stafa af henni en Ciaran Clark lét boltann fara og Martin Dúbravka markvörður gerði það sömuleiðis. Rúben Dias beið átekta innan markteigs og þakkaði fyrir sig með því að skalla boltann í netið.

Tuttugu mínútum síðar, á 27. mínútu, tvöfaldaði Cancelo forystu City. Hann lék þá með boltann inn á miðju, fór framhjá Joe Willock og svo Jamaal Lascelles og þrumaði honum svo upp í hornið með frábæru skoti fyrir utan teig.

Skömmu síðar vildi Newcastle fá vítaspyrnu þegar Ederson negldi Ryan Fraser niður innan vítateigs á sama tíma og Cancelo náði til boltans. Martin Atkinson dómari lét sér fátt um finnast og var atvikið ekki heldur skoðað í VAR.

Staðan var því 2:0, City í vil, þegar flautað var til leikhlés.

Á 64. mínútu kom þriðja mark City. Zinchenko átti þá góða fyrirgjöf frá vinstri þar sem Riyad Mahrez var einn á auðum sjó í vítateignum og stýrði boltanum af öryggi í netið.

Markið var upphaflega dæmt af vegna rangstöðu en það var alröng ákvörðun hjá aðstoðardómaranum og VAR leiðrétti mistök hans.

Fjórða markið kom svo áður en yfir lauk.

Gabriel Jesus fór þá auðveldlega framhjá Jacob Murphy, lék með boltann inn í vítateig og renndi honum þvert fyrir markið þar sem Raheem Sterling var mættur og kom honum afskaplega auðveldlega í netið.

Fleiri urðu mörkin ekki og gífurlega öruggur 4:0 sigur City niðurstaðan.

City er áfram á toppi ensku úrvalsdeildarinnar, nú fjórum stigum á undan Liverpool í öðru sætinu en Liverpool á snúinn leik gegn Tottenham á útivelli klukkan 16.30 í dag.

Newcastle heldur kyrru fyrir í 19. og næstsíðasta sæti deildarinnar.

Markalaust á Molineux

Í leik Úlfanna og Chelsea virtist Daniel Podence vera búinn að koma heimamönnum yfir eftir stundarfjórðungs leik. Þá skoraði hann af stuttu færi eftir flotta fyrirgjöf Fernando Marcal í kjölfar vel útfærðrar sóknar. VAR dæmdi hins vegar markið af vegna rangstöðu.

Upp úr krafsinu kom að Raúl Jiménez hafði snert boltann örlítið áður en Podence skoraði og var hann þá kominn fyrir innan og ákvörðunin því rétt.

Engin lögleg mörk voru skoruð í fyrri hálfleik og staðan því markalaus í leikhléi.

Mörkin létu sömuleiðis á sér standa í síðari hálfleik og lauk leiknum því með markalausu jafntefli.

Chelsea hefur nú aðeins unnið einn af síðustu fimm deildarleikjum sínum eftir að hafa byrjað tímabilið stórkostlega.

Fylgst var með gangi mála í báðum leikjunum í beinni textalýsingu hér að neðan.

Riyad Mahrez fagnar þriðja marki City.
Riyad Mahrez fagnar þriðja marki City. AFP
Joao Cancelo skorar með glæsilegu skoti fyrir utan vítateig.
Joao Cancelo skorar með glæsilegu skoti fyrir utan vítateig. AFP
Rúben Dias kemur Manchester City í forystu.
Rúben Dias kemur Manchester City í forystu. AFP
Enski boltinn í beinni opna loka
kl. 15:54 Leik lokið Wolves 0:0 Chelsea - Niðurstaðan í Wolverhampton er markalaust jafntefli.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert