Knattspyrnufélagið Chelsea fór þess á leit við ensku úrvalsdeildina að fresta leik liðsins gegn Wolverhampton Wanderers í dag, aðeins nokkrum klukkustundum áður en hann á að hefjast klukkan 14.
Beiðninni var hafnað og fer leikurinn því fram. Ástæðan fyrir beiðninni er líkt og hjá öðrum félögum undanfarna daga erfið staða innan herbúða Chelsea vegna fjölda kórónuveirusmita.
Sex af tíu leikjum helgarinnar hefur verið frestað en enska úrvalsdeildin ákvað að verða ekki við beiðni Chelsea.
Breski miðillinn Telegraph greinir frá því að vegna þessa gæti Chelsea neyðst til þess að hafa leikmenn sem eru ekki leikfærir á varamannabekk sínum í dag.