Chelsea er ósátt við að enska úrvalsdeildin í knattspyrnu karla hafi hafnað beiðni félagsins um að fresta leik liðsins gegn Wolverhampton Wanderers sem fer fram í dag klukkan 14.
Samkvæmt Sky Sports greindist einn leikmaður með kórónuveiruna í gærkvöldi til viðbótar við þá Mateo Kovacic, Romelu Lukaku, Ben Chilwell, Callum Hudson-Odoi og Timo Werner.
Fimmmenningarnir greindust allir með veiruna í vikunni og misstu því af leik Chelsea gegn Everton á fimmtudagskvöld.
„Við erum mjög vonsviknir yfir því að umsókn okkar um frestun hafi verið hafnað þar sem okkur þótti við vera með góðar og gildar ástæður fyrir því að fresta leik dagsins með hliðsjón af heilsu og öryggi leikmanna,“ sagði talsmaður Chelsea við Sky Sports.