Thiago, miðjumaður enska knattspyrnuliðsins Liverpool, er ekki í leikmannahópi liðsins gegn Tottenham Hotspur í dag vegna gruns um að hann sé smitaður af kórónuveirunni í annað sinn.
Eftir að hafa gengist undir hraðpróf í morgun fékkst jákvæð niðurstaða og er hann því kominn í einangrun og má ekki taka þátt í leik dagsins.
Nú er beðið niðurstöðu úr einkennasýnatöku, PCR-prófi, til þess að ganga úr skugga um hvort hann sé í raun og sann smitaður.
Frá þessu er greint á heimasíðu Liverpool.
Thiago smitaðist einnig af veirunni á síðasta tímabili.
Fabinho, Virgil van Dijk og Curtis Jones höfðu greinst með veiruna fyrr í vikunni en fyrir utan mögulega Thiago hefur enginn annar leikmaður smitast á undanförnum dögum.
Jordan Henderson er veikur og spilar ekki í dag en hann er þó ekki smitaður af kórónuveirunni.