Tottenham og Liverpool skildu jöfn, 2:2, í fjörlegum leik á heimavelli fyrrnefnda liðsins í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta í kvöld. Liverpool er áfram í öðru sæti, nú með 41 stig og þremur stigum á eftir Manchester City. Tottenham er í sjöunda sæti með 26 stig.
Fyrri hálfleikurinn var hraður og stórskemmtilegur og liðin skiptust á að skapa sér góð færi.
Fyrsta markið leit dagsins ljós á 13. mínútu og það gerði Harry Kane er hann slapp inn fyrir vörn Liverpool og skoraði af öryggi. Bæði lið héldu áfram að skapa sér færi en næsta mark kom hinum megin á vellinum og það gerði Diogo Jota með skalla úr teignum. Þrátt fyrir góð færi urðu mörkin ekki fleiri í fyrri hálfleik.
Fjörið hélt áfram í seinni hálfleik og aftur skiptust liðin á að skapa sér fín færi. Þriðja mark leiksins kom á 69. mínútu og það gerði Andy Robertson fyrir Liverpool með skallamarki af stuttu færi eftir sendingu frá Trent Alexander-Arnold.
Aðeins fimm mínútum síðar var staðan hinsvegar aftur jöfn er Heung-Min Son nýtti sér mistök Alisson í marki Liverpool og skoraði í autt markið. Tveimur mínútum síðar fékk markaskorarinn Robertson beint rautt spjald fyrir að sparka Emerson, varnarmann Tottenham, niður af miklum krafti.
Eftir rauða spjaldið róaðist leikurinn töluvert og Liverpool-menn voru skynsamir og héldu út, á meðan Tottenham tókst ekki að skapa sér mikið.