„Viðkomandi væri að stefna okkur í hættu“

Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool.
Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool. AFP

Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri enska félagsins Liverpool, segir að það yrði miklum erfiðleikum háð ef félagið hygðist ætla að kaupa leikmann sem er óbólusettur.

Klopp hefur undanfarna daga rætt um hversu mikilvægt það er að hlusta á sérfræðinga þegar kemur að mikilvægi þess að þiggja bólusetningu vegna kórónuveirunnar. Hann viti sjálfur ekkert um þessi mál en treysti sérfræðingunum.

„Það er ótrúlegt hversu hart andbólusetningarsinnar ganga fram,“ sagði Klopp á blaðamannafundi í gær. Á honum var hann spurður hvort hann íhuga það að fá leikmann sem er óbólusettur til liðs við félagið.

„Ég var spurður að þessu á síðasta blaðamannafundi og ég pældi satt að segja ekkert mikið í því. Það var líklega mín sök þar sem við erum augljóslega ekkert nálægt því að kaupa leikmann!

En síðan þá hef ég hugsað um þetta og já, þetta myndi setja stórt strik í reikninginn. Alveg klárlega,“ sagði Klopp.

Klopp útskýrði þankagang sinn nánar, en hann hefur áður sagt að um 99 prósent allra leikmanna og starfsliðs Liverpool sé bólusett: „Ef við tökum okkar aðstæður sem dæmi, ef leikmaður er óbólusettur stefnir hann okkur hinum í stöðuga hættu.

Hann vill auðvitað ekki vera ógn, það er ekki eins og hann hugsi með sér: „Guð minn góður, mér er alveg sama um hina.“ En viðkomandi væri að stefna okkur í hættu.“

„Við myndum þurfa að finna til mismunandi lausnir. Hann þyrfti að skipta um föt í öðrum búningsklefa, hann myndi þurfa að borða í öðrum matsal, hann myndi þurfa að ferðast í annarri rútu eða ferðast einn í sér bíl.

Þegar maður skoðar þetta út frá skipulagi er myndi skapast gífurleg óreiða. Ef maður vill fylgja reglunum er þetta virkilega erfitt að framkvæma,“ sagði Klopp einnig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert