Enska knattspyrnufélagið Leeds United hefur verið sektað um 20.000 pund af enska knattspyrnusambandinu fyrir að hafa ekki haft stjórn á leikmönnum sínum í 2:3 tapi gegn Chelsea í ensku úrvalsdeildinni fyrr í mánuðinum.
Leikmenn Leeds umkringdu dómaranna Chris Kavanagh og mótmæltu kröftuglega þegar hann dæmdi vítaspyrnu í uppbótartíma, sem Chelsea skoraði úr og tryggði sér þannig sigur. Þeir héldu svo áfram að kvarta í Kavanagh þegar lokaflautið gall.
„Leeds United gekkst við því að hafa ekki náð að sjá til þess að leikmenn þess hegðuðu sér með viðunandi hætti þegar þeir umkringdu dómara leiksins og samþykktu hina hefðbundnu refsingu,“ sagði í yfirlýsingu frá enska knattspyrnusambandinu.