Pep Guardiola, knattspyrnustjóri Manchester City, gaf til kynna í viðtali í dag að tveir af þekktustu leikmönnum Manchester City hefðu ekki tekið þátt í leiknum við Newcastle í gær vegna agavandamála.
Þeir Jack Grealish og Phil Foden voru á varamannabekk City í gær og komu ekkert við sögu. Spurður um ástæðu þess í viðtali við 5 Live Sport sagði Guardiola:
„Ég var ekki að dreifa leikjum á hópinn. Ég valdi þessa leikmenn til að spila því þeir verðskulduðu að vera í liðinu. Þeir verðskulduðu það, ekki hinir. Um jólaleytið fylgist ég sérstaklega vel með framkomu leikmanna, innan vallar sem utan. Og þegar þeir standa sig ekki sem skyldi utan vallar, spila þeir ekki," sagði Guardiola.
„Við þurfum að halda einbeitingu allan tímann. Um jólaleytið er sitt af hverju í gangi sem getur truflað einbeitinguna en menn verða samt að halda henni," sagði Guardiola.
Manchester City vann 4:0 og skoraði því ellefu mörk gegn engu í tveimur leikjum á fimm dögum í deildinni. Engin vandamál vegna kórónuveirunnar hafa herjað á lið City eins og mörg önnur og forysta Guardiola og hans manna í deildinni er nú þrjú stig eftir að Liverpool gerði jafntefli gegn Tottenham í gær.