Tottenham er úr leik í Sambandsdeild UEFA í knattspyrnu eftir að Rennes frá Frakklandi var úrskurðaður 3:0-sigur í viðureign liðanna í lokaumferð G-riðils keppninnar en leikurinn átti upphaflega að fara fram 9. desember í Lundúnum.
Honum var hins vegar frestað vegna fjölda kórónuveirusmita í herbúðum enska liðsins og hefur UEFA nú ákveðið að úrskurða Rennes í hag.
Sigur Rennes gerir það að verkum að Tottenham endar í þriðja sæti riðilsins með 7 stig en Tottenham hefði þurft að vinna til þess að fara áfram í 32-liða úrslit keppninnar.
Það verður því hollenska liðið Vitesse sem fer áfram úr G-riðlinum ásamt Rennes sem hafði þegar tryggt sér efsta sætið en Vitesse mætir Rapid Vín frá Austurríki í 32-liða úrslitunum.