Trúi því ekki að Chelsea geri breytingar

Thomas Tuchel og Chelsea hafa fengið 5 stig af 12 …
Thomas Tuchel og Chelsea hafa fengið 5 stig af 12 mögulegum í síðustu fjórum deildarleikjum sínum. AFP

Thomas Tuchel, knattspyrnustjóri Chelsea, verður ekki rekinn á næstunni þrátt fyrir dapurt gengi liðsins í undanförnum leikjum að mati Gary Nevilles, fyrrverandi fyrirliða Manchester United og sparkspekings hjá Sky Sports.

Chelsea gerði markalaust jafntefli gegn Wolves í ensku úrvalsdeildinni í Wolverhampton um nýliðna helgi en liðið er með 38 stig í þriðja sæti deildarinnar, sex stigum minna en topplið Manchester City.

Chelsea hefur aðeins unnið einn leik af síðustu fjórum deildarleikjum sínum og hefur aðeins fengið 5 stig af 12 mögulegum.

„Tuchel hefur gert mikið fyrir félagið og árangur hans hingað til segir mér að hann muni fá meiri tíma,“ sagði Neville eftir jafntefli Chelsea um helgina.

„Ég veit að Chelsea fer ekki hefðbundnar leiðir þegar kemur að stjórum en ég held samt sem áður að það sé ekki mikil pressa á honum.

Úrslitin hafa ekki fallið með þeim en hann mun fá tíma til þess að snúa þessu við. Maður spyr sig af hverju hann gaf ekki fleiri ungum strákum tækifæri þar sem bekkurinn var þunnskipaður en öll lið eru að ganga í gegnum erfiðleika vegna kórónuveirunnar,“ bætti Neville við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert