Jack Grealish og Phil Foden, leikmenn enska knattspyrnufélagsins Manchester City, skelltu sér út á lífið eftir 7:0-sigur City gegn Leeds í ensku úrvalsdeildinni á Elland Road í Leeds þriðjudaginn 14. desember.
Það er Sky Sports sem greinir frá þessu en þeir voru báðir fjarverandi á sunnudaginn síðasta þegar City vann öruggan 4:0-útisigur gegn Newcastle í ensku úrvalsdeildinni.
Pep Guardiola greindi frá því í gær að þeir hefðu báðir verið í agabanni og þess vegna hefðu þeir ekki verið valdir í leikmannahóp liðsins gegn Newcastle.
Eins og áður sagði skelltu þeir sér út á lífið á þriðjudaginn eftir stórsigurinn og var Guardiola ekki ánægður með frammistöðu þeirra á æfingu liðsins daginn eftir.
„Ég fylgist mjög vel með framkomu leikmanna, innan vallar sem utan, á þessum árstíma,“ sagði Guardiola í gær.
„Og þegar þeir standa sig ekki sem skyldi utan vallar, spila þeir ekki," bætti Guardiola við.