Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, sleppur við refsingu fyrir ummæli sín við Paul Tierney dómara eftir leik liðsins gegn Tottenham í ensku úrvalsdeildinni á sunnudaginn.
„Dómarar eru ekkert vandamál í mínum augum, nema þú,“ er Klopp sagður hafa sagt við Tierney eftir leikinn sem endaði 2:2.
Tierney sýndi Klopp gula spjaldið fyrir hávær mótmæli í fyrri hálfleik, eftir að Harry Kane, fyrirliði Tottenham, braut á Andy Robertson, vinstri bakverði Liverpool. Klopp var afar óhress með að Kane skyldi ekki fá rauða spjaldið. „Ef Robbo hefði staðið í fótinn hefði hann brotnað,“ sagði Klopp um atvikið og var heitt í hamsi.