Thomas Tuchel knattspyrnustjóri Chelsea kveðst þurfa að sækja leikmenn yfir í varalið og unglingalið félagsins til þess að manna hóp sinn fyrir leik gegn Brentford í enska deildabikarnum annað kvöld.
Chelsea var án sjö leikmanna í leiknum gegn Wolves í úrvalsdeildinni á sunnudaginn þegar liðin gerðu markalaust jafntefli, vegna kórónuveirusmita og meiðsla. Einn þeirra, Jorginho, er klár í slaginn á ný þar sem jákvæð niðurstaða úr sýnatöku hjá honum reyndist röng.
„Við þurfum að vernda okkar leikmenn og því sóttum við leikmenn úr unglingaliðinu til að æfa með okkur næstu tvo daga og spila gegn Brentford. Ég reikna hinsvegar ekki með því að þeir spili gegn Aston Villa," sagði Tuchel en Chelsea mætir Villa í úrvalsdeildinni á öðrum degi jóla.