Salah setur Liverpool þrjú skilyrði

Mohamed Salah hefur skorað 22 mörk á tímabilinu.
Mohamed Salah hefur skorað 22 mörk á tímabilinu. AFP

Egypski knattspyrnumaðurinn Mohamed Salah hefur mikinn áhuga á að leika áfram með Liverpool en viðræður hafa gengið hægt og nú hafa verið birt þrjú skilyrði sem hann er sagður hafa sett fyrir því að skrifa undir nýjan samning við félagið.

Sky Germany fjallar um stöðu mála hjá Salah og segir að fyrsta skilyrðið sé veruleg launahækkun en hann vilji fá laun í samræmi við hlutverk sitt í liðinu.

Annað skilyrðið sé dálítið óljósara en Salah er sagður vilja fá meiri viðurkenningu af hálfu Liverpool, án þess að það sé úrskýrt nánar.

Það þriðja sé síðan að Liverpool kaupi nýjan sóknarmann í hópinn á árinu 2022. Þar eru nú helst Erling Haaland og Dusan Vlahovic nefndir til sögunnar en þeir eru tveir af markheppnustu framherjum Evrópu um þessar mundir.

Salah hefur skorað 22 mörk í 24 leikjum með Liverpool á yfirstandandi keppnistímabili.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert