Abramovich ánægður með afsökun og endurprentun

Roman Abramovich klappar fyrir sínum mönnum á leik með Chelsea.
Roman Abramovich klappar fyrir sínum mönnum á leik með Chelsea. AFP

Enska bókaforlagið HarperCollins hefur beðið Roman Abramovich, eiganda knattspyrnufélagsins Chelsea, afsökunar á ummælum í bók og látið endurskrifa hluta hennar.

Breski blaðamaðurinn Cahterine Belton skrifaði bókina Putin's People, sem kom út á síðasta ári, og þar var haft eftir öðrum rússneskum auðkýfingi, Sergei Pugatsjev, að Abramovich hefði keypt Chelsea árið 2003 samkæmt skipun frá Vladimir Putin, forseta Rússlands.

Í yfirlýsingu frá forlaginu segir að í bókinni hafi verið ónákvæmar upplýsingar um Abramovich. „Þó í bókinni hafi því líka verið neitað að Abramovich hafi verið undir þrýstingi  frá einhverjum þegar hann keypti Chelsea, kemur fram í nýju útgáfunni mun ítarlegri útskýring á því hvers vegna Abramovich keypti félagið," segir í yfirlýsingunni.

Talsmaður Abramovichs sagði við BBC að þeir væru ánægðir með niðurstöðuna og sagði að aðdróttanirnar í bókinni hefðu verið án sannana og í raun alrangar.

„Þvert gegn því sem haldið er fram í bókinni hefur metnaður Abramovichs varðandi Chelsea ávallt verið skýr og augljós: Að skapa lið sem er á heimsvísu innan vallar og sé í jákvæðu hlutverki í sínu samfélagi," sagði talsmaðurinn.

Eftir að Abramovich keypti Chelsea hefur félagið fimm sinnum orðið enskur meistari, fimm sinnum enskur bikarmeistari og tvívegis unnið Meistaradeild Evrópu, þar sem félagið er nú ríkjandi meistari.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert