Fer frá Manchester City til Barcelona

Ferran Torres (11) í landsleik með Spánverjum.
Ferran Torres (11) í landsleik með Spánverjum. AFP

Barcelona og Manchester City hafa komist að samkomulagi um kaup Katalóníuliðsins á framherjanum Ferran Torres af Englandsmeisturunum.

Heildarkaupverðið getur orðið allt að 55 milljónum punda en upphafsgreiðslan verður 46,7 milljónir.

Torres þykir vera einn efnilegasti knattspyrnumaður Spánverja en hann er 21 árs gamall og kom til City frá Valencia árið 2020. Hann hefur skorað sjö mörk í 28 leikjum með City í úrvalsdeildinni og 12 mörk í fyrstu 22 landsleikjum sínum fyrir Spán.

Í vetur hefur hann aðeins komið við sögu í sjö leikjum með City í öllum mótum og skorað tvö mörk í fjórum leikjum í úrvalsdeildinni. Torres er frá keppni sem stendur vegna meiðsla.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert